Ferdalangur’s Weblog

Just another WordPress.com weblog

Nýr skóli, nýtt blogg, nýtt líf.

Nú er ég búin að vera í næstum tvær vikur hér í Göttingen og allar góðar áætlanir um að uppfæra þessu blessaða bloggi mínu reglulega (helst einu sinni í viku!) runnu út í sandinn á fyrsta degi. Bæði vegna þess að ég var fyrst í dag að fá skólanetið til að virka, og líka vegna þess að aðstæður heima hjá mér voru ekki góðar til vélritunar. Ég er nefnilega ekki enn búin að verða mér úti um skrifborð – þó að það líti út fyrir að ég fái eitt slíkt á morgun! Vei!

Þar fyrir utan var netsnúran mín of stutt, svo að ég er núna í tvær vikur búin að liggja á maganum fyrir framan tölvuna ef ég notaði netið. Prufið að vélrita í þeirri stellingu… það er ekkert sérstaklega þægilegt.

En nú sit ég á bókasafninu í háskólanum – sem er dásamlegt – og skrifa á skólanetinu og drekk kaffi. Af þessu tilefni er ég búin að breyta útlitinu á blogginu smá. Mamma kvartaði nefnilega yfir að það væri of dökkt og mér var farið að finnast kominn tími á tilbreytingu.

í gær var svo fyrsti tíminn í skólanum. Jább, ég er búin að vera í fjögurra mánaða fríi frá því að mæta í fyrirlestra, og hvort sem þið trúið því eða ekki þá var ég hreinlega orðin hundleið á því. Það var ágætt að vera heima, þó að það sé kannski ekki skemmtilegasti tíminn til að vera á Íslandi – Janúar, febrúar og mars – en ég var sko meira en tilbúin að setja mig í stellingarnar upp á nýtt. Ég á jú að heita að vera í námi, fjandinn hafi það.

Og hvað haldiði að mér hafi heppnast að gera? Ég skildi heilann eftir heima! Það er eina hugsanlega útskýringin á því að ég tók viljandi og vitandi vits að mér að halda framsögu og skrifa ritgerð um skoðanir Richards Rorty á Evrópumálum. Ef einhverjir gamlir HHSingar skoða þetta blogg þá skilja þeir hvað ég er að fara. Ég er viss um að næstum allir HHSingar sem sæju grein eftir hann á leslista fyrir námskeið myndu súpa hveljur – sem ég og gerði – og kannski fara að hlæja þegar kennarinn spyr hvort einhver kannist við náungann – sem ég gerði líka.

Ekki misskilja mig hér. Mér þótti ekki leiðinlegt í Kenningum í Heimspeki – sem var námskeiðið þar sem við lásum bókina hans. Það var bara eitt mest krefjandi námskeið sem við vorum sett í gegnum í HHS. Og það hjálpaði ekki að Rorty er torlesinn. Og maður er ekki alltaf í stuði til að meðtaka algera endurhugsun á heiminum eins og maður sér hann klukkan átta á fimmtudagsmorgnum.

En ég held að ef ég ætti að nefna námskeið sem ég græddi hvað mest á þá myndi ég telja Kenningar í Heimspeki með – ef eingöngu vegna þess að maður komst alls ekki í gegnum það nema að hugsa eins og heimspekingur. Sem eftir á að hyggja var sennilega tilgangurinn með því. Og eftir Rorty er önnur heimspeki almennt lítið mál.

Ég held að það hafi verið lógíkin bak við það að ég valdi Rorty. Það voru nefnilega aðrir menn á listanum, eins og Habermas og Derrida og fleiri kumpánar, og ég var allavega með það 100% á hreinu að ég kemst í gegnum Rorty. Ég þoli nefnilega hvorki Habermas né Derrida. (Maður má jú halda upp á heimspekinga eins og hvað annað, ekki satt?)

Meðan ég man, getur einhver sagt mér hvort það gerðist eitthvað merkilegt á Íslandi árið 1968? Við eigum að gera verkefni um 1968 og velja land, og ég bara hef ekki hugmynd um það hvort það var einhver „1968-kynslóð“ á Íslandi.

Að öðru leyti lítur út fyrir að lífið fari smám saman að komast í einhverjar fastar skorður. Þessa vikuna er ég að reyna að velja góða valkúrsa. Og ég þarf að fara að koma mér – ég er að fara í tíma um Islam og Evrópu…

apríl 15, 2008 Posted by | Uncategorized | , , | 2 athugasemdir