Ferdalangur’s Weblog

Just another WordPress.com weblog

Myndapóstur.

Hér kemur 1 stk ljósmyndapóstur, vegna þess að ég er einfaldlega of löt til að skrifa langa sögu hér…

Þessi dýrðlega bygging mun vera stúdentagarður númer 4 í Neředin í Olomouc, þar sem ég á þessa stundina heima. Ekki setja mig fast inn í adressubókina ykkar, ég á það til að skipta um heimilisföng eins og sokka. Ég er í stigaganginum fjær, á fimmtu hæð, og það er engin lyfta. Það er ekki skemmtilegt.

Vivian og Ian á Caesars á efra torginu í Olomouc, eftir alveg sérstaklega erfiðan dag í skólanum. Sem sést best á magninu af bjór á borðinu. Vivian er tékknesk, en Ian er frá Nebraska.

Ég og Maria frá Úkraínu á sama stað. Þeir búa til dýrðlegt Pasta Carbonara, ef Lilja skyldi vera að lesa 😉

Við fórum öll á veitingahús þegar ég átti afmæli og fengum okkur létt kvöldsnarl… (þ.e.a.s. steik í mínu tilviki). Vivian og ég.

Rosangela frá Venesúela í afmælinu mínu…

Ég þreif herbergið mitt hátt og lágt um daginn og tók svo myndir. Það er nú ekki mikið að sjá. Athugið að þetta stóra svarta ofan á skápnum er ekki ferðabaðkar eða ferðabátur, heldur ferðataska. Hún gæti hinsvegar sennilega gegnt hinum tveimur hlutverkunum með prýði.

Skrifborðsaðstaðan mín er ansi fábrotin, en þetta dugar. Eins og flestir sem þekkja mig vita er nóg að ég hafi einhvern stað til að setja tölvuna í samband, þá get ég unnið.

Annars er ekkert að frétta nema að ég er stjörf af þreytu eftir tveggja daga ferðalag til Brno með þremur öðrum stelpum, og er að hugsa um að fara að sofa. Ég þarf líka að vakna í fyrramálið til að gera heimavinnuna mína fyrir tékknesku.

Bestu kveðjur frá Olomouc.

október 7, 2007 Posted by | myndir | , | 2 athugasemdir