Ferdalangur’s Weblog

Just another WordPress.com weblog

Tsukiji

„Það er svolítið eins og það sé verið að leiða okkur til slátrunar,“ segir mamma.

Ég og pabbi samsinna, og pabbi togar í bláa vestið sem okkur var úthlutað til að sýna að við megum vera hér.

Sólin er rétt nýkomin upp og klukkan er eitthvað rúmlega fimm, tæplega sex. Mér gengur alltaf illa að henda reiður á því hvað klukkan er þegar ég vakna fyrir allar aldir. Við erum í röð sem trítlar á eftir einkennisklæddum lögreglumanni og reynum sem mest við getum að verða hvorki fyrir bíl né vélknúnu fisktrillunum sem fara hreint óþægilega hratt yfir. Sem verður auðvitað til þess að ég stíg í eitthvað ógeðslegt, og ég er bara í sandölum.

Áfangastaðurinn er stór salur, þægilega svalur, og fullur af gaddfreðnum túnfiski og japönskum karlmönnum í stígvélum (hefði betur lært af þeim). Háværar raddir hljóma úr næsta sal við hliðina á, sérstök syngjandi japanska sem ég þekki helst úr daglegu lífi þegar maður segir eitthvað sem er orðin alger rútína.

Japönsku karlmennirnir rölta um og höggva í túnfiskana með krókum, pota í sporðbitann, þar sem er búið að skera flipa svo sést í kjötið.

„Þeir eru að velja hvað þeir vilja bjóða í,“ segir pabbi, og við mamma nikkum og veltum fyrir okkur hvað það sé sem þeir sjái.

Og svo allt í einu byrjar hávær bjölluhljómur, hróp og köll, og mér finnst helst eins og verið sé að kalla mig inn úr frímínútum í Álftanesskóla… Inga Gangó var einmitt með svona handbjöllu. Einn af Japönunum stekkur upp á kassa, setur sig í stellingar, og svo byrjar ballið, og hávaðinn er ekki lengur í næsta sal heldur beint fyrir framan okkur. Uppboðshaldarinn tónar eins og prestur, og kaupendurnir gefa merki með fingrunum, þangað til að öllum finnst nóg komið fyrir þennan ákveðna fisk og uppboðashaldarinn tónar að fiskurinn sé seldur og heldur áfram.

Uppboðið fer fram nánast á ljóshraða – ein röð af túnfiski seld, og maðurinn á kassanum hoppar yfir í næstu og byrjar upp á nýtt. Á bak við hann birtast menn á vélknúnu trillunum ógurlegu, en líka eldri menn með handkerrur, og starfsmenn markaðsins höggva í fiskinn með krókum og sveifla honum upp á farartæki kaupandans, hvert svo sem það kann að vera.

Og svo eins og hendi væri veifað er uppboðið í okkar sal búið, og einkennisklæddi lögreglumaðurinn gefur okkur merki um að elta sig, gegnum króka og kima, nema nú erum við í ganginum sem túnfiskurinn fer í gegnum og allsstaðar eru menn með kerrur og á mótortrillum með frosna fiska, heila eða sagaða, og ég er svo upptekin af að verða ekki keyrð niður að ég stíg í eitthvað ógeðslegt með hinn fótinn.

Á Tsukiji fiskmarkaðnum (‘u-ið’ er ekki borið fram, svo nafnið hljómar meira eins og Tskvídjí) eru seld 2300 tonn af fiski á hverjum degi. Maður þarf að mæta klukkan fimm ef maður ætlar að sjá uppboðið, og svo má maður ráfa um ákveðin svæði þar sem allskonar annar matur og matartengdur varningur er seldur.

Við röltum heim á hótel í gegnum sushibásana skömmu eftir sjö – himininn var enn að blána – og ég lét mér fátt um finnast þó tærnar á mér væru frekar óspennandi og skreið undir sæng.

Pabbi lýsti því svo yfir þegar við fórum aftur af stað að honum fyndist dagurinn eiginlega ónýtur því við fórum ekki af hótelinu fyrr en klukkan tíu.

Ég held að ef pabbi fengi að ráða í öllum ferðalögum myndum við leggja af stað klukkan fimm út af hótelinu á hverjum degi.

Auglýsingar

september 2, 2011 Posted by | Uncategorized | Ein athugasemd

Nýjustu fréttir.

Það er alltaf erfitt að byrja að blogga upp á nýtt eftir langt hlé. Manni finnst einhvernveginn alltaf eins og maður eigi að uppdeita alla á öllu sem hefur skeð síðan maður uppfærði síðast (í júní 2010, ómægod).

Svo hér er stutt samantekt yfir það sem ég hef verið að gera síðustu… 9 mánuði: Vinna. Borða. Sofa.

Hafandi afgreitt það…

Fjöldi fólks hefur haft samband við mig síðan jarðskjálftinn varð þann 11. mars. Flestir falla í bilið einhverstaðar á milli þess að velta fyrir sér hvort það sé í lagi með mig, og að spyrja hvort ég ætli nú bara ekki að koma heim.

Svörin við þessum spurningum eru, í réttri röð: „Jú, allt í besta,“ og „Nei, ekki að ræða það.“

Og þar með verður hugsanleg heimför mín ekki rædd frekar.

Eins og stendur er ég heima hjá mér, með öll ljós slökkt og flest rafmangstæki aftengd, vel dúðuð í peysuteppi og ullarsokkum til að þurfa ekki að keyra hitarann á fullu blússi. Við höfum verið beðin um að spara rafmagn eins og hægt er, og þar sem flestum Tókýóbúum finnast þeir hálf-gagnslausir þessa dagana, ég þar með talin, þá eru ljós dempuð í höfuðborginni þessa dagana, þar sem fólk gerir hvað það getur til að spara.

Ég gisti hjá vini mínum í gærkvöldi og við nutum þess að vera aðeins minna ein í heiminum… bæði niganakatta-gaijin – þ.e.a.s. útlendingur sem skeit ekki á sig og lét sig hverfa við fyrstu merki um vandræði – en búin að vera aðeins of límd við fréttirnar síðustu daga. Við elduðum góðan mat, drukkum bjór og horfðum á vídeó. Hann er á tíundu hæð, svo þegar eftirskjálfti varð á ellefta tímanum sveiflaðist húsið fram og til baka eins og maður væri í rólu.

Íbúðin mín er hinsvegar staðsett við hliðina á umferðargötu þar sem þungaviktartraffík er algeng og verð að viðurkenna að trukkaumferðin er svolítið að taka mig á taugum – ég er vön að húsið hristist, en nú bíð ég alltaf eftir að húsið haldi áfram að hristast.

Ég þarf sennilega að hjóla í vinnuna á morgun, þar sem Group 1 (sem ég er í) missir rafmagnið um 6.20 og fær það ekki aftur fyrr en klukkan 9. Það munu sennilega ekki ganga lestir. Ég veit hinsvegar að allt japanska starfsfólkið verður á sínum stað og ég get ekki verið minni manneskja en þau, allra síst þegar ég veit að sú staðreynd að ekkert okkar hefur yfirgefið landið skiptir samstarfsfólk mitt máli.

Þar fyrir utan veit ég að krakkarnir koma á morgun til að ná í einkunnirnar sínar, og ég vil geta horft framan í nemendur mína þegar ég kenni þeim á næsta ári. Þetta er landið þeirra, og þau geta ekkert farið.

Það eru ellefu dagar frá jarðskjálftanum í dag. Hljómurinn í umræðunum lyftist um skeið eftir að 16 ára strákur og amma hans fundust á lífi á Sunnudaginn. Japanir eru ansi góðir í að vona. En það sem þeir virðast vera bestir í er að halda áfram, þrátt fyrir að lífið sé allt úr skorðum gengið – hér kvartar enginn og samkenndin er ótrúleg.

Á hverjum degi finnst mér meira og meira til þessa fólks koma.

Og á hverjum degi fæ ég hlýlegri og hlýlegri viðtökur í nágrenninu þar sem ég bý. Fólk brosir til mín úti í búð, gefur sig á tal við mig, og spyr mig hvort mig vanti eitthvað. Hvort ég sé á leiðinni heim, hvort ég hafi verið hrædd… og ég segi að ég sé frá Íslandi, og vön því að jörðin skjálfi.

Lífið gengur sinn vanagang. Ég veit að erlendir fréttamiðlar hafa algerlega misst sig í dómsdagsspám, en ég lagði það á mig strax á Sunnudag að læra allt sem ég einusinni kunni í geislafræði upp á nýtt, og ég veit nákvæmlega hverju ég þarf að hafa áhyggjur af. Ég er yfir 200 km frá Fukushima og í vel öruggri fjarlægð.

Það var loksins einhver sem bjó til skiljanlegt graf yfir geislun, kíkið á það: http://blog.xkcd.com/2011/03/19/radiation-chart/

Ég reikna fastlega með að uppfærslur í framtíðinni verði vonandi algengari, en styttri.

Kveðja,

Elínin

mars 22, 2011 Posted by | Uncategorized | Færðu inn athugasemd

In Medias Res.

„Heldurðu að þetta sé nokkuð japönsk heilabólga?“ fæ ég í símapósti á þriðjudagseftirmiðdegi. Það er greinilega ekki nóg að forðast sjálfur Dr. Google eins og heitann eldinn þegar maður verður óvænt snögglega mjög veikur í útlöndum, heldur verður maður líka að klippa á internetið hjá samstarfsfélögunum.

„Nei,“ skrifa ég til  baka. „Ég held þetta séu streptókokkar.“ Það tekur mig sirka hálftíma að skrifa orðið „streptókokkar“ enda enn óvön lyklaborðinu á símanum mínum.

„Nei bara,“ fæ ég um hæl. „Því þú eyddir miðvikudagsmorgninum í síðustu viku á hrísgrjónaakrinum og mér var sagt að þú hefðir verið berfætt. Heldurðu að það hafi ekkert með þetta að gera?“ Ég reyni að halda svarinu stuttu; samstarfskona mín er vís til að kalla út hjálparsveit ef það tekur mig of langan tíma að skrifa.

„Ég varð náttúrlega rennandi blaut því það var rigning, en það voru allir berfættir,“ sendi ég til baka.

„Ertu ekki stíf í hálsinum?“ skrifar samstarfskonan, ekki af baki dottin. „Þú varst að tala um að þig vantaði hitateppi…“ Ég er reyndar helaum í hálsinum, en… líka í bakinu, öxlunum, mjöðmunum, handleggjunum og magavöðvunum.

Ég pikka inn svar. „Ég held það hafi meira að gera með það að ég eyddi sunnudagskvöldinu á hvolfi.“

„Já Mariko sagði mér það. Hvernig var?“

„Fínt,“ svara ég og vona að veikindi mín séu þarmeð horfin af málefnaskrá. „Ég fer örugglega aftur. Og ég fann gallabuxur í GAP svo stóra buxnavandamálið eru úr sögunni.“

Það líða 45 mínútur þangað til ég fæ næst skilaboð, sem ég átti von á, enda umræddur samstarfsfélagi í vinnunni. Ég kíki á klukkuna og það stemmir akkúrat; hún var að kenna fimmtu skólastund.

„Vantar þig saumastofu?“ kemur næst. „Ég þarf að fara með buxur fyrir manninn minn, ég get kippt þínum með ef þú ert enn í vandræðum.“

„Neh,“ skrifa ég. „Hefurðu ekki tekið eftir því að ég er stundum í bláum buxum núna? Ég fann stofu og heppnaðist meira að segja að tjá mig?“

„Er ekki yfirkennarinn himinlifandi?“ kemur þegar sjöttu skólastund er lokið.

„Örugglega,“ svara ég. „En ég á bara ekki fleiri föt eins og stendur. Hann verður bara að sætta sig við það að ég sé stundum í bláum buxum. Hey, það gæti verið verra, ég gæti komið í grænni skyrtu.“

„Líður þér örugglega betur?“ fæ ég eftir nokkra stund.

„Ég lofa,“ svara ég, „að ef ég dey í svefni í nótt skal ég hringja í þig fyrst.“

+++

EAE: Ég verð að uppfæra, en það er svo langt síðan síðast að ég veit ekki hvar ég á að byrja!

IÞ: In medias res. (Lat: Byrja í miðjunni.)

+++

Þetta var ekki japönsk heilabólga. Þetta voru streptókokkar. Ég er að fara til læknis á morgun.

+++

Sunnudagskvöld á hvolfi líta út fyrir að verða reglulegur fídus hjá mér. Ég man ekki til þess að Jóhanna Jóhanns hafi látið okkur eyða svona miklum tíma á hausnum í jóga á Bifröst forðum daga, en þetta tók bæði á og var mjög afslappandi á sama tíma. Einhvern veginn.

+++

Inga Þóra: Hvað varstu að gera á hrísgrjónaakri?
Elín: Nú, planta hrísgrjónum.
Inga Þóra: Afhverju varstu að planta hrísgrjónum?
Elín: Vegna þess að það var hrísgrjónaplöntunardagurinn.
Elín: … ég er að gefa þér smá innsýn í líf mitt.
Inga Þóra: Þar sem þú hefur hrísgrjónaplöntunardaga?
Elín: Þar sem ég spyr spurninga eins og „bíddu, planta hrísgrjónum?“ og fæ svör eins og „Því hrísgrjónaplöntunardagur, já?“
Inga Þóra: Ó Japan
Elín: só
Elín:  Eftir því sem ég næst kemst, þá er allt heila fyrirtækið gert til þess að fá börnin til að skilja HVAÐAN MATURINN KEMUR. Þessvegna planta fyrstu og þriðjubekkingarnir hrísgrjónum á vorin.
Elín: Og það er hellingur af hrísgrjónaumhugsun og hrísgrjónaheimsóknum og hvað veit ég og svo er uppskerudagur.
Inga Þóra: Virðist mjög lærdómsríkt.
Elín: Líka mjög drullugt.

+++

Stefnan er að uppfæra meir. Sjáum hvernig þróunin verður.

Kv. EA

júní 2, 2010 Posted by | Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Elín í tíu Spurningum og Svörum, Apríl 2010.

[English version below]

Úff, þetta blogg er orðið svolítið ryðgað og rykugt, ekki satt?

Ég ætti eiginlega að fara að sofa í staðinn fyrir að uppfæra, en mig er búið að langa til þess núna í nokkrar vikur án þess að geta það, og eftir að hafa fundið út úr öllum fixunum sem ég þurfti til að geta yfirleitt uppfært langar mig svolítið til þess… ég get sofið þegar ég er dauð og ég þarf ekki að mæta í vinnuna á morgun fyrr en um hádegið – þó að ég eigi samt að komast inn í miðborg (1,5 klst) og borða (45 mín), svo ég þarf hvort eð er að vakna klukkan átta. Einfaldasta leiðin til að uppfæra eftir svona langan tíma er sennilega þessi:

Elín í tíu Spurningum og Svörum, Apríl 2010.

Spurning 1: Svo… inn í miðborg? 1,5 klst? Hvar í ósköpunum ertu niðurkomin?

Svar: Uh, ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin er ég ekki alveg viss… Ég hef íbúð en enginn sagði mér hvert heimilisfangið er og þar sem ég kann ekki að lesa eins og stendur hef ég ekki minnstu hugmynd.

Spurning 2: Bíddu… kanntu ekki að lesa? Síðan hvenær kanntu ekki að lesa?

Svar: Síðan ég flutti til Japan fyrir þremur vikum síðan.

Spurning 3: Japan? Fyrir þremur vikum? Þú ert ekki beint búin að vera mjög dugleg að uppfæra fólk, er það?

Svar: Eeeeh, nei, sorrý.

Spurning 4: Svo, þrjár vikur? Hversvegna ertu ekki búin að pósta neitt?

Svar: Tölvan mín ákvað að hún væri leið á lífinu. Þegar mér heppnaðist að hreinsa út af henni alla vírusana og spyware-ið sem náði að safnast fyrir á henni í þær þrjár sekúndur milli þess að ég fræsti hana niður og reinnstallaði Windows og þess að ég náði að setja inn vírusvörn, var tölvan komin með nýja strategíu. Nú vill hún ekki lengur vera með „Enter“ lykil eða „Delete“ lykil. Það tók mig viku – út af skorti á interneti – að komast til botns í þvi hvort þetta væri forritavandamál eða mekkanískt vandamál. Ég kaupi laust lyklaborð fljótlega, en í millitíðinni er ég að nota svona sex mismunandi aðferðir við að skrifa þennan póst. Og minntist ég a að ég hef ekki haft mjög gott internet? Eða að ég er í Japan?

Spurning 5: Við náðum því. Japan? Hvað ertu að gera þar?

Svar: Ég er að kenna ensku í grunnskóla. Og tónlist. Á ensku, þeas. Ég hefði sennilega ekki átt að ljóstra því upp að ég spilaði á fiðlu í 13 ár, en það var annaðhvort að upplýsa að ég kann tónfræði eða eiga á hættu að mér væri falið að kenna leikfimi.

Spurning 6: Leikfimi?

Svar: Eg sagði þeim líka að ef þeir létu mig kenna leikfimi ættu þeir á hættu að verða á óbeinan hátt móður minni að bana, þar sem ég er nokkuð viss um að hún hefði hlegið þangað til hún fengi einhverskonar áfall.

Spurning 7: En í alvörunni, leikfimi?

Svar: Það er ekki það fyndnasta; það fyndnasta er að ég má ekki vera með naglalakk þegar ég fer í vinnunna… eða í háhæluðum skóm. Eða kannski er það fyndnasta að ég þarf að vera í einhverju dragtarlegu í vinnunni (það þarf ekki að vera heil dragt sem betur fer) helst með hvítri skyrtu. Ég má líka vera í eftirfarandi „litum“: Gráu, svörtu, dökk til ljósbrúnu, dökkbláu. Spennandi! Þegar ég fór að kaupa skyrtur með vinnufélaga mínum var ég að reyna að spyrja hana um aðra liti og hún sagði mér: „Ein af kennslukonunum í hlutastarfi á græna peysu sem hún er stundum í… Ég held ekki að neinn hafi SAGT NEITT við hana…“

Spurning 8: Ertu ekki að grínast?

Svar: Ónei. Það eru lika flóknar reglur um skyrtukraga og jakkakraga. Í stuttu máli sagt; ef ég er í peysu eða skyrtu sem er ekki með kraga verð ég að vera í jakka með kraga, en ef ég er í skyrtu með kraga kemst ég upp með að vera í kragalausum jakka…

Spurning 9: Bíddu, þú ert að ekki að tala um það sem skiptir mestu máli! JAPAN?

Svar: Þetta er góð vinna og vel borguð. Samstarfsfélagarnir virðast líka mjög kúl og rútínan sem þeir setja mann i hér er eiginlega nokkuð þægileg. Og þegar maður mætir a fund og fær allt niðurnjörfað, frá kennsluplani niður i það hver á hvaða skó-hólf og hversu margir stólar eiga að vera í hvaða stofu, eftir mörg ár þar sem ég hef bara lifað eftir hentugleika, er bara nokkuð skemmtilegt. Þar fyrir utan, eftir að hafa verið á flakki af og á síðan 2003 er það fínt að vera að koma sér fyrir einhversstaðar til langframa.

Spurning 10: Bíddu, langframa? Áttirðu ekki kærasta? Hvað ætlarðu að vera þarna lengi?

Svar: Kærastinn minn tók upp á því að fá vinnu í sínu fagi rétt áður en ég fór, svo auðvitað er eg ánægð fyrir hans hönd, en kemst ekki hjá því að vona hálft í hvoru að hann verði mjög hrifinn af landinu og ákveði að koma og vera þegar hann kemur í heimsókn 😉 Eg skrifaði upp á samning til eins árs, með sjens a að lengja hann, svo við sjáum til.

Spurning 11: En…

Svar: Sorrý, uppiskroppa með spurningar! Og ég verð að fara að sofa 🙂 Goða nótt (dag!) og ef þið þekkið fólk í Japan, látið mig vita!Okay, then! This journal is just a mite dusty, isn’t it?

I… probably should go to bed instead of updating but I’ve been wanting to update for a couple of weeks now and not been able to, and I’m using about six different workarounds to do this post, so what the hell, I can sleep when I’m dead, and I don’t have to be at work tomorrow until noon – though I do have to make my way into the city (1,5 hours) and eat (45 minutes), so that means I have to get up at eight, anyway… In any case, probably the simplest way to do this is this:

Sarka ten Questions and Answers for April, 2010.

Question 1: So… into the city? 1,5 hours? Where in the world is , anyway?

Answer: Uh, to be perfectly honest, I am not rightly sure. I have an apartment, but nobody bothered to tell me the address and since I am currently unable to read, I have no clue.

Question 2: Hang on a second, unable to read? Since when are you unable to read?

Answer: Since I moved to Japan three weeks ago.

Question 3: Japan? Three weeks ago? You haven’t really kept us up to date recently, have you?

Answer: Uh, no, sorry about that.

Question 4: So three weeks? How come you haven’t posted anything?

Answer: My computer decided that it was sick and tired of working at all. Once I’d managed to clean out the whole host of viruses it accumulated in the three seconds between the time I erased the harddrive and reinstalled windows and the time I managed to install virus protection, it came up with a new strategy and has now become extremely tired of having an enter key. And a backspace key. It took me a week – because of the no internet thing – to determine that I had a hardware problem, not a software problem. I’ll be buying a new keyboard soonish. In the meantime, you don’t even want to KNOW the lengths I went to to be able to write this post. Also, did I mention the „not so much internet“ thing? And maybe the I’M IN JAPAN thing?

Question 5: We got that. Seriously, Japan? What are you doing there?

Answer: Teaching English at an elementary school. And music. In English. I should probably not have mentioned the thing about playing violin for 13 years, but it was either reveal that I know my music theory or risk being made to teach PE.

Question 6: PE?

Answer: I also told them that if they made me teach PE, they might become indirectly responsible for the untimely death of my mother, as I’m fairly certain she would have immediately laughed herself into some sort of an attack.

Question 7: But seriously, PE?

Answer: Oh, that’s not even the best part, the best part is the one where I am not allowed to wear nailpolish to work. Or heels. Or maybe the best part is that I have to wear a dark suit-ish thing (fortunately, it doesn’t have to be a matching suit) with preferably a white shirt. I’m also allowed the following colours: Gray, Black, Dark brown to light brown, Navy. Exciting, right? When I went shopping for shirts with a coworker, I tried to feel her out a bit about other colours… she told me that „One of the Part Time Teachers has a green cardigan she wears sometimes… I don’t think anybody has ever SAID ANYTHING to her…“

Question 8: Are you serious?

Answer: Oh yeah. There are also extensive rules about shirt collars and jacket collars. In short, if I’m wearing a shirt or cardigan that doesn’t have a collar, I need to be wearing a jacket with one. If I’m wearing shirts with a collar, I can put on the collar-less jacket.

Question 9: Wait, you’re distracting us. JAPAN?

Answer: It’s a good job, and it’s well paid. Also, so far my coworkers seem awesome and the level of routine they impose is a little refreshing, actually. It’s kind of nice to go to a meeting where they hand out everything from teaching assignments to shoe locker assignations and tell you how many chairs and tables there should be in each classroom, after years of playing my life by the ear. And I’ve been transient on and off since 2003, it’s kind of an interesting feeling to be purposefully settling somewhere.

Question 10: Wait didn’t you have a boyfriend? Is he there? How long are you going to stay?

Answer: My boyfriend, much to my mixed emotions, managed to get a job in Iceland just before I left. I’m happy for him, naturally, because it’s what he’s trained for and in his field, but… I am kind of hoping he falls in love with Japan when he comes for a visit and decides to stick around with me over here 😀 I have signed a contract for one year, but they’re already making noises about wanting me to stay longer. We’ll see. It depends very much on the circumstances.

Question 11: Don’t you….

Answer: You had ten questions.Sorry! Still have to translate this whole thing into Icelandic, too! Cheers, and by all means, if any of you are in Japan, or have friends in Japan, I totally need more friends over here!

apríl 1, 2010 Posted by | Uncategorized | , | 2 athugasemdir

Hehem.

Elín Arna Ellertsdóttir lýsir eftir eftirfarandi hlutum sem hafa á einhvern óskiljanlega hátt glatast henni:

 1. Nóvembermánuði. Hann lét ekki sjá sig í Göttingen þetta árið.
 2. Svartri prjónahúfu úr flauelsgarni.
 3. Skammtímaminni. Til þess sást síðast í júní 2007, á Bifröst, Íslandi.
 4. Grein sem ég las haustið 2006 um NATO og framtíð þess. Allar vísbendingar um hvar hún gæti verið niðurkomin á harðadisknum mínum eru vel þegnar.
 5. Bók eftir Joe Hill sem heitir „Heart Shaped Box“ – Besta bók sem ég hef lesið lengi en hún hefur á einhvern dularfullan hátt horfið úr bóka… uh… hrúgunni minni. (Á ekki bókahillu.)
 6. Skipulagsgáfa – hefur sennilega misfarist og orðið eftir á Kárahnjúkum hér um árið.

Ennfremur óskast keypt, ódýrt:

 1. Jólaskap – kemst ekki almennilega í það árin sem ég baka ekki smákökur.
 2. Sjálfsagi og einbeiting – ATH: Framtaksleysi og frestunarárátta fæst gefins á sama stað.
 3. Evrur og/eða sterlingspund.
 4. Eyðieyja í Karabíska hafinu
 5. Þolinmæði – helst ónotuð
 6. Almennileg vekjaraklukka sem lifir af samvistir við undirritaða lengur en 3 mánuði í senn. Hún þarf sennilega að vera hönnuð af NASA.

Kveðja,

Elín

desember 3, 2008 Posted by | Uncategorized | 3 athugasemdir

Matti, gjaldeyriskreppa og Köln, úje.

Eftir að Matti tók það sem voru, að því að mér skilst, skrilljón próf (meira um það á hans bloggi hér) ákváðu foreldrar vorir að splæsa á hann flugmiða hingað til mín, og lestarmiða fyrir mig til Köln. Ég og Matti vorum mikið búin að hlakka til og hvarflaði ekki til hugar að hætta við þrátt fyrir yfirstandandi gjaldeyriskreppu, sem náði lítið að slá á gleðina hjá okkur þessa helgi. Eða, við létum það allavega ekki trufla okkur.

Ég fékk frí í vinnunni á föstudeginum til að fara til Köln og hitta Matta. Ég vaknaði nógu seint til þess að ég þurfti að hjóla á milljón á lestarstöðina og hlaupa upp á brautarpall. Ég stökk af hjólinu og ég læsti því einhversstaðar fyrir utan lestarstöðina án þess að veita því mikla athygli hvar það var. Þetta gerði það að verkum að ég og Matti þurftum að ganga nokkra hringi í kringum reiðhjólastæðin og ég var farin að velta fyrir mér hvort ég fyndi það nokkurntímann aftur. Viðbrögð Matta við reiðhjólastæðinu fyrir utan lestarstöðina voru nokkuð lýsandi – hann sagði; „Vó.“ Og svo var bara þögn.

Hingað koma reiðhjól til að deyja.

Hingað koma reiðhjól til að deyja.

Í lestinni uppgötvaði ég að ég hafði gleymt aukaprjónunum í prjónadótið mitt. Þannig að ég gat ekkert prjónað. Í staðinn hlustaði ég á tónlist og las grein í International Herald Tribune um að Ísland stefni í gjaldþrot. Gaman gaman. Enda horfði ég ákveðið framhjá öllum dagblaðastöndum, bæði í Kassel og í Dortmund þar sem ég skipti um lestir, og reyndi að hugsa ekki um að ég veit ekki hvort Visakortið mitt virkar í þessu ástandi.

Matti var kominn til Köln á undan mér og beið á lestarstöðinni. Þar urðu fagnaðarfundir og við ákváðum að fara fyrst á hótelið, þar sem Matti var frekar slæptur eftir að hafa sofið á Heathrow og ég hafði gleymt að greiða mér um morguninn í flýtinum við að komast út úr húsinu. Hótelherbergið var ekki tilbúið, en þeir tóku töskurnar okkar, svo við röltum út í næsta bakarí og borðuðum hádegissnarl. Á leiðinni reyndum við að taka út úr hraðbanka. Það virkaði ekki.

Við stóðum við hraðbankann og ræddum kenningar okkar um það í hversu djúpum skít við værum eiginlega ef að við ættum engan pening. Skyndilega snýr maðurinn í átómatinu við hliðina sér að okkur og segir: „I hope you’re not trying to get money from Landsbanki!“ Svo tístir í honum og hann snýr sér aftur að eigin bankaviðskiptum.

Íslendingar eru ekki vinsælasta fólk á jarðarkringlunni eins og stendur.

Eftir hádegismat fórum við aftur á hótelið (sem við vorum ekki viss um að geta borgað fyrir…) og komum okkur fyrir – fórum í sturtu, tékkuðum á fréttum og sáum að búið var að loka fyrir millifærslur til og frá Íslandi. Það var allavega enging hætta á að við hefðum ekki nóg að tala um!

Moment of Truth

Við ákváðum að gera gott úr hlutunum og fórum út í bæ til að skoða okkur um og fá okkur kaffi (þ.e.a.s. Elín fékk sér kaffi.) Eftir að hafa mælt út götur miðbæjarins og skoðað innviði dómkirkjunnar ákváðum við að gera áhlaup á annan hraðbanka. Þar hélt hann okkur í óvissu í örugglega tvær mínútur, en ég hef aldrei upplifað eins stressandi bið eins og biðina meðan á skjánum stóð; „we are processing your request.“ En við fengum pening. Húrra!

Við fögnuðum því með því að drekka bjór.

Svo ráfuðum við um aðeins meir í leit að veitingastað. Enduðum á að borða súpergóða pitsu og pasta á ítölskum stað, og fórum svo heim á hótel, þar sem Matti ætlaði að „leggja sig“ fyrir kvöldfréttir sjónvarpsins, en mér tókst ekki að vekja hann meir fyrr en morguninn eftir.

Systkin!

Systkin!

Við hófum laugardaginn á að fá okkur morgunmat. Það er, við hófum laugardaginn á því að kaupa Berlínarbollur.

Ich bin ein Berliner

Ich bin ein Berliner

Svo fórum við niður að á, settumst í grasið og nutum lífsins.

Hamingja!

Hamingja!

Þar sem við höfðum byrjað daginn svona vel ákváðum við að bæta um betur og fara á safn. Súkkulaðisafn. Þar var sýnt hvernig súkkulaði er búið til, og talað um hvaðan kakóbaunin kemur og hvernig súkkulaði var borðað í gamladaga. Vissuð þið að súkkulaðistykki urðu ekki til almennilega fyrr en í kringum 1850? Fram að því var súkkulaði bara drukkið. Og til að drekka súkkulaði þurfti maður 1. að vera ríkur og 2. að hita könnuna alltaf vegna þess að annars storknaði drykkurinn. Þessvegna eru sérstakar súkkulaðikönnur alltaf með tréhaldfangi. Mér þótti þetta merkilegt.

Mér þótti líka merkilegt að komast að því að á hverri sekúndu eru 418 manns að bíta í KitKat, og að miðað við framleiðsluhraðann á KitKat væri hægt að byggja Eiffelturn úr framleiðslu fimm mínútna.

Til að setja punktinn yfir heimsóknina á súkkulaðisafnið fórum við á kaffihús safnsins. Þar pöntuðum við heitt súkkulaði, Matti með Baileys og ég með myntulíkjör.

Það má eiginlega segja að þögn hafi slegið á okkur á þessum tímapunkti, þar sem súkkulaðið var svo yfirgengilega gott að við sátum bara og nutum þess í botn. Namm. Mig langar aftur. Og í meir.

Til að vinna af okkur súkkulaðið og berlínarbollurnar ákváðum við að heimsækja dómkirkjuna aftur. Það er að segja, dómkirkjuturninn.

Varúð, tröppur.

Varúð, tröppur.

Okkur fannst þessi viðvörun frekar fyndin, þar sem tekið var fram í miðasölunni að um væri að ræða 157 metra klifur, eða heilar 509 tröppur.

Og svo var klifrað af stað, hring eftir hring eftir hring. Okkur var farið að svima, og ég var farin að anda eins og eimreið. Við hvern einasta hring hugsaði ég; „þetta hlýtur að fara að enda…“ en áfram héldum við, upp, upp, upp. Loksins fóru að koma svona mjóir gluggar, og við gátum séð að við vorum komin hátt, nógu hátt til að vera í svipaðri hæð og minni turnarnir. Þá héldum við nú að það gæti ekki verið langt eftir, en mér reiknaðist svo til eftirá að við höfum verið hálfnuð um það leyti sem gluggarnir byrjuðu. Þegar við vorum loksins komin efst í turninn vorum við bæði andstutt og sveitt, og algerlega ófær um að ganga beint eða beygja til vinstri, þar sem hringstiginn hafði snúið til hægri.

En það var ekki nóg að komast efst á turninn, nei, til að sjá eitthvað útsýni þurfti maður að fara upp í þak. Þegar hér var komið sögu vorum við orðin svo þreytt að 200 tröppur í viðbót voru ekkert vandamál, svo við höfðum okkur alla leið upp. Og svimaði. Ekki nóg með að Kölnardómkirkja sé að flatarmáli stærri en sumir íslenskir smábæir, heldur er hún líka mun hærri en maður á einhvernveginn von á – auðvitað sér maður á jörðu niðri að hún sé svimandi há, en maður nær því einhvernveginn ekki fyrr en mann byrjar að svima.

Eftir að hafa notið útsýnisins og skoðað kirkjuklukkurnar lögðum við af stað niður. Þá beygði stiginn náttúrlega til vinstri, sem var erfitt fyrst, en þegar við loksins komumst út var mjög erfitt að byrja aftur að beygja til hægri.

Við höfðum fjörutíu mínútur, svo við skutluðum í okkur einum bjór – en þurftum svo að hlaupa á hótelið til að ná í töskurnar, og til baka á lestarstöðina. Það var pínu erfitt, sérstaklega þar sem hvorugt okkar var komið upp á lag með að beygja til hægri, og lestin sem við áttum að fara í var hægra megin á brautarpallinum… en það hafðist allt á endanum.

Við þurftum að skipta tvisvar um lest áður en við komum til Göttingen, og svo ákváðum við að labba heim, með ferðatöskuna hans Matta í eftirdragi. Þegar við loksins komum í Númer Níu var klukkan orðin ansi margt, og við ákváðum að senda tölvupóst með beiðni um aðföng á næsta Joey’s. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að panta pitsu í tölvupósti, en Matti segir að maður geti gert það á Íslandi líka.

Svo sátum við með pitsuna og horfðum á Iron Man, sem er svona bíómynd þar sem maður þarf ekki heilastarfsemi nema í algeru lágmarki til að hafa gaman af. Mamma og pabbi hringdu, og við tékkuðum á fréttunum – eyjan okkar var ekki sokkin í sæ, en peningarnir okkar voru jafn pikkfastir á Íslandi.

Svona er lífið. Ég held að Matti ætli að skrifa meir um næstu tvo daga bráðlega – getur verið að ég geri það líka. Ef þið viljið sjá allar myndirnar úr ferðinni er albúmið mitt hér.

Svo skil ég ykkur eftir með þessa uppskrift, sem varð til þegar ég vann misserisverkefni um hvort gengiskreppa væri í nánd á Íslandi, vorið 2006.

Verðbólguskot.
Hálft skotglas Jägermeister
Hálft skotglas Absinth
1 kreist sítrónusneið

Hrærið saman í viskíglasi og kveikið í. Drekkið logandi.

október 16, 2008 Posted by | Uncategorized | 5 athugasemdir

Nesti og nýir skór…

Stundum þegar maður gerir nóg af því að flækjast um heiminn endar maður á því að lenda í ævintýrum, algerlega óvart. Og stundum lendir maður í hryllingssögum.

Málið er bara að maður er aldrei viss um í hvernig sögu maður endar fyrr en maður er kominn á staðinn.

Þegar ég og Ruo komum til Nordstemmen, sem er næsta lestarstöð við kastalann sem við ætluðum að skoða, vorum við eiginlega vissar um að við værum lentar í hryllingssögu.

Fyrsta vísbendingin var lestarstöðin, sem var vægast sagt spúkí. Allir gluggar voru brotnir og huldir með krossviðarplötum, en það var smá vindur og golan gerði draugaleg hljóð þegar hún hvein í rafmagnslínunum.

Ástandið batnaði ekki þegar við lögðum af stað í gegnum bæinn til að komast að kastalanum, en þangað áttu að vera um það bil þrír kílómetrar. Hvergi var líf að sjá. Við gengum meðfram aðalgötunni, og reyndum að koma auga á fólk, en allar verslanir virtust lokaðar, og meira að segja lókalbarirnir voru dimmir og tómir. Ein blómabúð virtist opin, en þrátt fyrir að við reyndum að sjá hver héldi blómabúð opinni á laugardegi þegar enginn var á ferli sáum við engan. Það voru ekki einusinni bílar á ferð á götunni. Það var eins og bæjarbúar hefðu verið numdir á brott.

Við þurftum að ganga töluverðan spotta í gegnum íbúðarhverfi, sem var óþægilega hljótt. Á hlýjum laugardegi á Íslandi myndi fólk alltaf vera á ferli: krakkar úti að leika sér, íbúðareigendur í haustverkum í garðinum, fjölskyldur á leið til afa og ömmu í laugardagsmat. Í Nordstemmen sáum við gardínur bærast stundum þegar við löbbuðum framhjá, en að öðru leyti var eina lífið við tvær og þrjár kindur sem voru í girðingu miðja vegu á leiðinni og komu hlaupandi þegar þær sáu okkur eins og þær hefðu ekki séð fólk í margar vikur.

Okkur var hætt að lítast á blikuna, og ekki leið okkur betur þegar við gengum fram hjá stærðarinnar steinslípunarverksmiðju þar sem voru til sýnis legsteinar af öllum stærðum og gerðum. Hinum megin við götuna var krá með Biergarten, þar sem var stór leikvöllur fyrir börn… rólurnar sveifluðust til og frá, en enginn sat í garðinum, meira að segja þó klukkan væri akkúrat passlega hádegismatur.

Allan tímann meðan við gengum í gegnum bæinn vorum við búnar að reyna að tala saman, til þess að slá á þögnina, og þegar hér var komið sögu var okkur farinn að liggja hátt rómur því þögnin var svo þrúgandi.

„ÞETTA ER SVOLÍTIÐ DRAUGALEGT,“ sagði Ruo.

„HEFUR ÞÚ TEKIÐ EFTIR EINHVERJUM Á FERLI?“ spurði ég.

„ÉG SÁ KONU Í ELDHÚSGLUGGA Á EINU HÚSINU,“ svaraði Ruo.

„NÚJÆJA, ÞÁ ER ÞETTA EKKI DRAUGABÆR!“ sagði ég.

„ÉG ER EKKI VISS,“ sagði Ruo, „HÚN GÆTI HAFA VERIÐ UPPVAKNINGUR. EÐA VAMPÍRA.“

Það fór um mig hrollur. „KANNSKI VEIT HÚN AÐ ÞAÐ ERU UPPVAKNINGAR EÐA VAMPÍRUR Á FERLI OG HÚN ÞORIR EKKI AÐ KOMA ÚT? KANNSKI ERU ALLIR BÆJARBÚAR AÐ FELA SIG VEGNA ÞESS AÐ EITTHVAÐ HRÆÐILEGT LIGGUR Í LEYNI.“

Við þögðum í smá stund.

„Ef eitthvað hræðilegt liggur í leyni,“ hvíslaði Ruo, „þá ættum við ekki að tala svona hátt.“

Við þögðum það sem eftir var út úr bænum, þangað til kastalinn kom í ljós uppi á næstu hæð.

Eftir þennan draugalega bæ áttum við hálfvegis von á því að kastalinn væri umsetinn af dreka, að við myndum þurfa að berja okkur leið gegnum þyrnigerði, eða að í efsta turninum væri prinsessa með nógu síða fléttu til að leyfa okkur að klifra alla leiðina upp, en þrátt fyrir að kastalinn væri eins og klipptur út úr ævintýri var ekkert slíkt á seyði.

Okkur leið aðeins betur að vera komnar út úr draugabænum Nordstemmen og þrátt fyrir að eiga hálft í hvoru von á að prins á hvítum hesti tæki fram úr okkur hvað á hverju vorum við aftur farnar að velta fyrir okkur hvernig í ósköpunum okkur hefði tekist að ganga í gegnum meðalstórt þorp um hádegisbil á laugardegi án þess að sjá hræðu. Við vorum rétt nýbúnar að komast að þeirri niðurstöðu að við værum bara ímyndunarveikar og það væri ekkert að ske, þegar hópur af slökkviliðsmönnum hljóp framhjá okkur í áttina að bænum.

Við litum fyrst á hvor aðra og störðum svo í forundran á eftur þeim. „Sást þú þetta líka?“ spurði ég Ruo á endanum.

„Uppvakningar,“ sagði Ruo, „eru hræddir við eld.“

Við héldum áfram upp hæðina að kastalanum, og reyndum að láta sem ekkert væri þegar tveir aðrir hópar af slökkviliðsmönnum hlupu framhjá okkur.

Kastalinn var fullur af ferðamönnum, og við fengum leiðsögn í gegnum flottustu herbergin í hóp. Kastalar verða pínku þreytandi eftir ákveðinn tíma, ekki síst kastalar í Þýskalandi, þar sem smákóngar ríktu yfir hálfum héröðum og byggðu sér fáránlega velútbúna kastala. Til þess að botna nokkurn skapaðan hlut í sögu kastalans reynist manni því nauðsynlegt að reyna að rekja ættartré smákónganna saman við einhvern sem maður kannast við, eða að reyna að átta sig á því hvernig landið lá fyrir tvöhundrað árum. Og svo er þetta allt skylt, og alltaf verið að benda manni á að þessi prinsessa hafi gifst þessum kóngi og að þessi skápur hafi verið brúðargjöf handa þessum konungbornu hjónum þegar þau giftu sig, og svo framvegis. Algerlega vonlaust mál.

Mér var hinsvegar alveg fullkomlega saman þegar ég sá bókasafnið. Mig langaði að eignast það eins og það lagði sig. Þetta var flottasta bókaherbergi sem ég hef nokkurntíman séð, þar með talið bókasafnið í Strahov og Carolinum í Prag.

Verst að ég fann ekki stærri og betri mynd. Búhiss.

Við stoppuðum í smástund í kastalagarðinum til að fá okkur hressingu, enda báðar þyrstar eftir klifrið upp á kastalahæðina. Þar sem klukkan var ekki nema tæplega þrjú ákváðum við að halda áfram til Hildesheim – en það þýddi að við urðum að fara til baka til Nordstemmen.

Þar hafði ekkert breyst; rólur sveifluðust drungalega, þögnin var yfirgnæfandi, og meira að segja kindurnar, sem við höfðum hálf hlakkað til að sjá aftur, voru horfnar. Hvergi var manneskja á ferli, og við sáum hvorki tangur né tetur af slökkuliðsmönnunum.

Okkur var farið að hlakka til að komast burt – burt, burt, bara með fyrstu lest, en burt héðan – þegar við rákumst á fyrstu lifandi manneskjuna sem við höfðum séð í bænum, og svo ótrúlega vildi til að það var herbergisfélagi minn, hún Sabine. Þegar við vorum búnar að spyrja hvor aðra í forundran hvað hin væri eiginlega að gera HÉR bauð Sabine okkur far til Hildesheim, því þar á hún heima, og mamma hennar var á leiðinni til að ná í hana. Meðan við biðum svipuðumst við um eftir merkjum um líf, og útskýrðum fyrir Sabine að við hefðum verið á ferli í bænum allan eftirmiðdaginn og ekki séð lifandi hræðu.

„Ég kem oft hér í gegn og hef aldrei séð neinn. Og það er eins og lestarstöðin hafi orðið fyrir árás,“ sagði hún.

Úff. Við vorum mikið fegnar þegar mamma hennar birtist og við gátum klifrað inn í bílinn. Þegar við keyrðum út af aðalgötunni sáum við stelpu standandi uppi við húsgafl að reykja. „Þarna er manneskja,“ sagði Sabine. „En hún gæti verið uppvakningur, aldrei að vita.“

Við Ruo samsinntum. Það var ekki fyrr en við vorum búin að keyra í fimm mínútur að við sáum næstu merki um líf. Það var fyrir utan slökkviliðsstöðina í bænum; þar var lúðrasveit að koma sér fyrir, hoppukastali, og meirihluti bæjarbúa samankomnir að borða pulsur.

Ójæja. Okkur Ruo kemur allavega vel saman því við erum með álíka ofvirkt ímyndunarafl.

september 18, 2008 Posted by | Uncategorized | , | 11 athugasemdir

Sagan endurtekur sig?

Símtal við móður mína, 18. apríl 2003.

Elín: Ykkur getur ekki verið alvara. Lóð?
Mamma: Hún er á rosafínum stað í Hafnarfirði. Akkúrat niðri í miðbæ.
Elín: Þið gerið ykkur grein fyrir því að ef að þið kaupið lóð verðið þið að byggja annað hús.
Mamma: Þetta er nú bara svona til gamans gert, það eru engar líkur á að við fáum þetta. Við erum bara að sjá hvað gerist.
Elín: Langar ykkur virkilega að eyða næstu milljón árum í áframhaldandi byggingarvinnu?


Símtal við móður mína, 18. ágúst 2008.

Elín: Ég trúi ekki að þið hafið gert tilboð. Þið eruð galin.
Mamma: Þetta er náttúrlega gamall sumarbústaður, það væri gaman að eiga heima þarna, flottur staður.
Elín: Já, en er húsið ekki ónýtt? Pabbi sagði það. Ætlið þið að byggja annað hús?
Mamma: Þetta er nú bara svona til gamans gert, það eru engar líkur á að við fáum þetta. Við erum bara að sjá hvað gerist.
Elín: … ég hef heyrt þennan áður.


Ég held að foreldrum mínum vanti eitthvað þægilegt og róandi hobbí, eins og fallhlífarstökk eða rallíakstur.

ágúst 20, 2008 Posted by | Uncategorized | 3 athugasemdir

4500 kílómetrar – and counting

Mér telst svo til eftir nákvæmar fyrirspurnir – Google er besti vinur minn – að á rúmum mánuði hafi mér tekist að ferðast rúmlega 4500 kílómetra. Fyrir þá sem gera sér enga grein fyrir því hvað þetta er langt þá er Þjóðvegur 1 á Íslandi 1381 km. Það er að segja, ég er búin að fara þrisvar sinnum hringinn og vel það.

Þessir 4500 kílómetrar eru semsé ferðalagið til Kraká í Póllandi – sem ég hef ekkert talað um (ég er enn að bíða eftir að það hafi verið gaman) – og svo nýlegt ferðalag mitt á ættarmót í London. Eða þannig. Þar voru allavega mamma og pabbi og Matti, og svo voru Guðný Lára og Erla með okkur nokkra daga.

Það væri gaman að sjá hversu mikið vegalengdin lengdist ef tekið væri með í reikninginn allt sem við vorum látin gera í Póllandi, öll skiptin sem ég tók lestina frá Kingston og inn til London (og til baka) með pabba, allt ráfið okkar pabba hingað og þangað í London og allt sem ég gekk. Ég hugsa að það nái því alveg að verða fjórði hringurinn kringum Ísland.

Það eru nokkrir hlutir sem eru alveg bráðnauðsynlegir til þess að svona ferðalög gangi yfirleitt upp.

 • Númer 1: Góð ferðataska.

Samanburðarstærð á venjulegum bakpoka og yðar einlægri.

Ferðataskan sem ég kom með hingað og ég ferðast með núna er í daglegu tali innan fjölskyldunnar kölluð „baðkarið“. Ég læt ykkur um að ímynda ykkur hvað það þýðir hvað varðar stærðina á henni. Hún er það stór að maður verður virkilega að halda aftur af sér ef maður ætlar sér ekki að borga yfirvigt í flugvélum. Ég held að það sé hugsanlega ástæðan fyrir því að mér finnast lestar æðislegar… ég þoli ekki vesenið á flugvöllum.

 • Númer 2: Góðir skór.
Ekki alveg.

Ekki alveg.

Þegar ég var í Póllandi var svo sjúklega heitt að maður vildi helst ekki vera í fleiri fötum en var bráðnauðsynlegt. Eitt af því augljósasta til að sleppa voru sokkar. Af þessu leiddi að þegar ég kom heim voru allir skór sem ég hafði tekið með mér gersamlega viðurstyggilegir. Ýmsum aðferðum var beitt til að ná úr þeim táfýlunni. Svörtu strigaskórnir mínir voru erfiðastir, en voru þó húsum hæfir eftir nokkuð rækilegan þvott, svo ég ákvað að taka þá með til London.

Á dauða mínum átti ég von frekar en því að helvítis skórnir tækju upp á því að hlaupa í þvotti.

Sem betur fer fann ég skóbúð þar sem var útsala og keypti mér annað par, en ekki fyrr en þeir voru búnir að kvelja mig í nokkra daga. Pabbi minn, sem ég og mamma eigum til að láta fást við allt sem er óþægilegt, sárt, eða leiðinlegt, (þetta er ástæðan fyrir því að pabbi vaxar á okkur fótleggina) stakk svo á blöðruna, svo ég gat gengið daginn eftir.

Sem betur fer voru þeir ekki byrjaðir að meiða mig þegar ég og pabbi keyptum eldhúsinnréttinguna og fórum með hana í neðanjarðarlestina. En það er önnur saga.

 • Númer 3: Þolinmæði.

Ég ætla ekki að setja inn neina mynd við þetta atriði, en bendi ykkur þess í stað á myndina af mér sem prýðir bloggið mitt að staðaldri. Fyrir þá sem ekki vita er sú mynd tekin af mér á flugvellinum í Glasgow, þar sem 3 sentimetrar af snjó urðu til þess að flugvellinum var lokað. Eftir að við höfðum beðið á honum allan daginn (og ég hafði reynt að tengjast internetinu) vorum við keyrð á hótel og flogið með okkur morguninn eftir. Þetta varð til þess að ég missti af lokaprófi á Bifröst.

Finnst ykkur ég ekki einstaklega þolinmóð á svipinn á þessari mynd?

 • Númer 4: Góðir ferðafélagar.
Mamma, pabbi og Matti á ströndinni i Bournemouth. (Ég tók þessa mynd bara til að geta sagt "STOPPSTOPPSTOPP TAKA MYND" þvi þau voru komin lengst á undan mér, enda skórnir að drepa mig.)

Mamma, pabbi og Matti á ströndinni í Bournemouth. (Ég tók þessa mynd bara til að geta sagt "STOPPSTOPPSTOPP TAKA MYND" því þau voru komin lengst á undan mér, enda skórnir að drepa mig.)

Það er ekki næstum því eins skemmtilegt að ferðast einn. Það er ekki leiðinlegt, en það er miklu meira gaman ef maður er með skemmtilegu fólki. Annað fólk gerir það yfirleitt að verkum að maður skoðar hluti sem maður myndi annars aldrei sjá. Eins og byggingavöruverslanir (pabbi), smábæi á suðurströndinni (Matti) úthverfi London þar sem eru næstum engir ferðamenn (mamma) og hitt og þetta annað skemmtilegt. Og svo er það líka alltaf þannig að maður kynnist fólki allt öðruvísi þegar maður ferðast með því. Ég og pabbi eigum til dæmis ýmis sameiginleg áhugamál (bjór) og ég og mamma vinnum alveg hrikalega vel saman á ferðalögum.

 • Númer 5: Nóg – og þá meina ég NÓG – af bjór.

Bjór

Bjór

Bjór

Sem betur fer er pabbi minn jafn hrifinn af bjór og ég.
Mestu máli skiptir samt að taka hlutunum með ró (þar kem ég sterk inn) og taka hvern dag fyrir sig – og sérstaklega að vera ekkert að æsa sig þó einhver plön fari örlítið úr skorðum. Eða ef maður villist. Eða ef maður þarf að fara með hálfa eldhúsinnréttingu í neðanjarðarlestina. En það er önnur saga.
Nú er ég víst komin heil heim í bili. Það er verst að ég er ennþá andlega í fríi. Mig langar ekkert til þess að koma mér að verki, en ég víst verð.

ágúst 10, 2008 Posted by | Uncategorized | | 4 athugasemdir

Ég neita að vera verri bloggari en bróðir minn.

Jæja gott fólk.

Þegar ég skrifaði síðustu færslu – í tilefni af því að maí átti bráðum að vera búinn – var ég svona á mörkunum með það að fara á límingunum. Ég var alltaf búin að tala um að það myndi hægjast aðeins um hjá mér í lok maí, og þá ætti ég að geta farið að taka lífinu með aðeins meiri ró.

Í stuttu máli sagt var þetta algerlega kolbandvitlaust hjá mér. Júní herti þumalskrúfurnar á okkur, ef eitthvað var.

Það er alltaf frekar strembið að byrja svo að skrifa eftir svona langa pásu. Um hvað á maður að tala? Allt sem gerðist í millitíðinni? Hvað ef það sem gerðist í millitíðinni er eitthvað sem best er að útskýra með eftirfarandi grafi:

Semsé: Ritgerðir. Og fleiri ritgerðir.

Svo ég hlakkaði vitanlega til þess að fara til Kraká. Þó Kraká væri ráðstefnuferð á vegum Evrópufræðaprógrammsins í heild sinni vissi ég að það yrðu skoðunarferðir, og ég myndi hitta fólk sem ég hafði ekki séð síðan í Olomouc og það yrði ógeðslega gaman. Og þó að þetta væri vinnuferð hlyti að vera einhver frítími, og ferðin myndi allavega vera tilbreyting.

Tímanotkun nemanda í Evrópumenningarfræði í Kraká er best sýnd með ÞESSU grafi:

Og það var alveg sama hvað maður reyndi: Maður þurfti alltaf að taka þrjár sturtur – það var ÓGEÐSLEGA HEITT – það var alltaf biðföð eftir kaffi, það var alltaf hæg þjónusta á öllum veitingastöðum, og það voru alltaf vandræði að finna leigubíl.

Ég er, í stuttu máli sagt, enn að jafna mig.

Auðvitað er meira frá Kraká að segja en að útskýra að þegar maður var ekki að gera eitthvað var maður að hlaupa á milli staða. En ég er að hugsa um að setja það í sérpóst. Með myndum. Semég tók á myndavélina, en bjó ekki til í Excel…

En svona til að gefa ykkur forskot á þennan planaða myndapóst ætla ég að pósta hér eina mynd alveg sérstaklega fyrir föður minn:

Snjallir lesendur geta líka elt þennan link aftur á myndasíðuna mína, sem er hér

júlí 9, 2008 Posted by | Uncategorized | , , | 7 athugasemdir